Íslandsbanki seldi í dag um 110 þúsund hluti í Icelandair Group. Miðað við gengi félagsins við lok markaða í Kauphöllinni í dag er andvirði viðskiptanna um milljarður króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að hlutirnir hafi verið seldir en gengið á þeim bréfum sem seld voru eru ekki gefin upp. Þá kemur ekki fram hver kaupandinn að bréfunum er.

Íslandsbanki var í upphafi dags þriðji stærsti hluthafinn í Icelandair Group með um 9,9% hlut. Við söluna fer hlutur Íslandsbanka þó niður í 4,7%, sem gerir bankann að sjötta stærsta hluthafanum miðað við núverandi hluthafalista. Lífeyrissjóður verslunarmanna er sem fyrr stærsti hluthafinn með 14,36% hlut en Framtakssjóður Íslands á 12,01% hlut í félaginu. Þó er rétt að taka fram að heildareignarhlutur Íslandsbanka nemur áfram 7,46% en þar af er 2,75% hluti í gegnum sjóði á vegum bankans og því undanskilinn flöggunarskyldu.

Leiðrétting : Í fyrri útgáfu þessarar fréttar kom fram að Íslandsbanki hefði selt 335 þúsund hluti og markaðsvirði viðskiptanna því um 3,2 milljarðar króna. Það er ekki rétt og leiðréttist hér með. Hið rétta er að bankinn átti 335 þúsund hluti fyrir viðskiptin í dag.