Íslandsbanki hefur lokið sölu á skuldabréfum að virði 2,35 milljarðar króna fyrir norska skipafyrirtækið Havila Shipping ASA, segir í tilkynningu.

Bréfin, sem eru til fimm ára, eru verðtryggð og verður flokkurinn skráður í Kauphöll Íslands, segir í tilkynningunni. Hlutabréf Havila eru skráð í norsku kauphöllinni.

Þetta er þriðja verðtryggða skuldabréfaútboðið sem Íslandsbanki leiðir á þessu ári fyrir erlend fyritæki sem sækja sér fjármagn til Íslands, segir bankinn. Hin tvö voru fyrir norska sjávarútvegsfyrirtækið Aker Seafoods og kanadíska sjávarútvegsfyrirtækið Clearwater Seafoods.

Bréf Havila voru seld til íslenskra fagfjárfesta.

Samanlagður hagnaður stóru viðskiptabankanna fyrstu níu mánuði ársins nam um 66 milljörðum króna. Mestur hagnaður bankanna er af fjárfestingabankastarfsemi og þjónustutekjum vegna fyrirtækjaráðgjafar.