Íslandsbanki semur við Lattice 80 um samstarf á sviði fjártækni, en um er að ræða stærsta fjártæknisamfélag í heiminum í dag. Lattice 80 tengir í dag saman 11.000 nýsköpunarfyrirtæki í 100 borgum og aðstoðar það nýsköpunarfyrirtæki að þróa lausnir sínar og koma þeim á framfæri á alþjóðamarkaði.

Íslandsbanki kynnti á vormánuðum að bankinn stefni á að opna fyrir samstarf um þróun á framtíðar fjártæknilausnum þar sem þriðja aðila er veitt aðgengi að upplýsingum í gegnum öruggar vefþjónustur. Með því að nýta gögn bankans verður hægt að þróa lausnir sem miða að því að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu að því er segir í fréttatilkynningu bankans.

Með samstarfinu við Lattice 80 er búinn til vettvangur fyrir þá sem þróa lausnir í samstarfi við bankann til að koma lausnum á framfæri á mun stærri markaði í alþjóðlegu umhverfi.

Íslandsbanki og Háskólinn í Reykjavík tilkynntu nýlega um samstarf þar sem nemendur og starfsfólk Íslandsbanka vinna saman að rannsóknum og þróun á nýjum fjártæknilausnum. Lattice 80 mun efla það samstarf enn frekar og aðstoða við að þróa lausnir fyrir bankakerfi framtíðarinnar.

Hafa þegar fengið fjölmargar umsóknir

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs Íslandsbanka sér fjölmörg tækifæri fyrir samstarfsaðila bankans og lausnir þeirra. „Fjártækni í fjármálaþjónustu fleygir fram og við höfum þegar fengið fjölmargar öflugar umsóknir eftir að við tilkynntum að við myndum opna bankann,“ segir Sigríður Hrefna.

„Íslenskt háskólasamfélag er gríðarlega öflugt og styður vel við hraða þróun lausna hér á landi. Samstarfið við Lattice 80 mun efla lausnirnar enn frekar og koma þeim á framfæri á alþjóðamarkaði sem er mikill akkur fyrir okkar samstarfsfélaga.“

Joe Seunghyun Cho, stofnandi og forstjóri Lattice80 segist spenntur að starfa með Íslandsbanka að þróun nýrra fjártæknilausna og styðja um leið háskólasamfélagið.„Ísland er alveg einstakur staður. Menningin og landfræðileg staðsetning gera Ísland að fullkominni miðstöð sem tengir saman bandarískan og evrópskan markað,“ segir Cho.

„100% endurnýjanleg orka sem og mikil meðvitund um samfélagslega ábyrgð gera Ísland að fullkomnum stað til að þróa fjártæknilausnir sem hafa jákvæð áhrif.“