Íslandsbanki er einn fimm banka sem hafa sölutryggt 607,5 milljóna punda(186,4 milljarða íslenskra króna) endurfjármögnun á yfirtöku bresku líkamsræktarstöðvakeðjunnar Fitness First, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fjárfestingasjóðurinn BC Partners samþykkti að kaupa Fitness First fyrir 1,2 milljarða punda í september í fyrra. Japanski bankinn Mizuho leiðir endurfjármögnunina, en þýsku bankarnir Dresdner Bank og Helaba, breski bankinn Lloyds TSB og Íslandsbanki tóku þátt í að sölutryggja endurfjármögnunina.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa bankarnir þegar náð að selja niður stöður sínar á alþjóðalánamörkuðum og um 40% eigið fé var greitt við yfirtökuna. Fjármálasérfræðingar í London, sem Viðskiptablaðið hafði samband við, telja skuldsetningu félagsins nokkuð hóflega sé tekið mið af peningaflæði fyrirtækisins, en heildarskuldsetningin er 5,2 sinnum hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA).

Það var skuldsett yfirtökusvið Íslandsbanka í London, sem stjórnað er af Erlendi Magnússyni, sem tók þátt í endurfjármögnuninni. Íslandsbanki hefur víkkað út lánasvið sitt til að styðja við skuldsettar yfirtökur og opnaði bankinn útibú í Danmörku í fyrra.