Útlit er fyrir að 3 til 5 milljarða króna halli hafi verið á vöruskiptum við útlönd í maímánuði. Í sama mánuði í fyrra mældist hallinn 3,2 milljarða króna og hefur staðan á vöruskiptajöfnuðinum líkt og á viðskiptajöfnuðinum í heild verið að versna á síðustu mánuðum.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að innflutningur án skipa og flugvéla nam 18,5 milljörðum króna maí samkvæmt bráðabirgðatölum frá fjármálaráðuneytinu. Um er að ræða 4% meiri innflutning en í sama mánuði í fyrra að raungildi og er skýring aukningarinnar að finna í innflutningi fjárfestingarvara og flutningatækja. Á móti auknum innflutningi reiknum við með að útflutningur hafi verið á bilinu 13,5 milljarða króna til 15,5 milljarða í maí síðastliðnum, en í fyrra nam útflutningur 15,1 milljörðum. Í spánni er gert ráð fyrir að verðmæti útfluttra sjávarafurða hafi verið nokkuð minna en í maí í fyrra en samkvæmt tölum Hagstofunnar var verðmæti fiskafla í maí ríflega 15% minna en á sama tíma í fyrra á föstu verði. Yfir sama tímabil hækkaði gengisvísitala krónunnar um 3,8% og er reiknað með að verð í sjávarafurða hafi lækkað á milli ára um nær 5%. Hagstofan mun birta vöruskiptajöfnuð maímánaðar miðvikudaginn 30. júní næstkomandi.

Á fyrstu mánuðum ársins er jafnan töluverður afgangur á vöruskiptum við útlönd en í ár var lítill afgangur í ársbyrjun og ef spáin gengur eftir er maí þriðji mánuðurinn í röð á þessu ári þar sem halli reynist á vöruskiptum við útlönd. Í síðustu uppsveiflu fór viðskiptahalli í ríflega 67 milljarða króna eða um 10% af landsframleiðslu og var hallinn eitt helsta áhyggjuefnið í efnahagsmálum þjóðarinnar á þeim tíma. Á skammvinnu samdráttarskeiði hvarf hins vegar sá mikli halli eins og dögg fyrir sólu og að mati margra á mettíma. Nú hefur hallinn hins vegar snúið aftur og í fyrra mældist hann 43,4 milljarðar eða ríflega 5% af landsframleiðslu. Útlit er fyrir enn meiri halla á þessu ári en á fyrsta ársfjórðungi í ár reyndist 13 milljarða viðskiptahalli þrátt fyrir jafnvægi á vöruskiptum við útlönd. Greining ÍSB spáir því að viðskiptahallinn fari í 7,5% af landsframleiðslu í ár og 8,4% á næsta ári og að þegar litið er til loka yfirstandandi skeiðs stóriðjuframkvæmda muni hallinn grafa undan styrk krónunnar.