Greining ÍSB spáir því að verðlag hækki um 0,5% milli júní og maí og að 12 mánaða hækkun verðlags verði 3,6% en Hagstofan mun tilkynna um breytinguna á morgun. Verðbólgan mælist nú 3,2% og mun því samkvæmt spánni aukast um 0,4 prósentustig á milli mánaða. Samkvæmt spánni mun verðbólgan hafa tvöfaldast á einu ári en í júní í fyrra mældist verðbólgan 1,8%. Verðbólguskot þetta má ekki nema að litlum hluta rekja til olíuverðshækkana á heimsmarkaði. Meginástæða hækkanna liggur í hækkun í nær öllum liðum vísitölunnar og ber það merki aukinnar undirliggjandi verðbólgu. Að mati Greiningar ÍSB er verðbólgan nálægt sínu hámarki í bili a.m.k. Líkur eru á því að hún hækki ekki svo neinu nemur á næstu mánuðum. Jafnvel eru frekar líkur á því að hún lækki aðeins. Greining ÍSB spáir því að verðbólgan yfir þetta ár verði 3,1%.