Íslandsbanki segir útlit fyrir að vísitala neysluverðs lækki um 0,1% á milli desember og janúar. Gangi spá bankans eftir mælist verðbólgan yfir árið 2004 3,8% og minnkar frá því í desember þegar hún var 3,9%. Verðbólgan er enn vel yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands og getur hæglega rofið efri þolmörk peningastefnunnar (4%) á næstu mánuðum.

Óvissa spárinnar er meiri en oft áður þegar spáð hefur verið fyrir um næsta gildi vísitölunnar. Útlit er fyrir bæði miklar hækkanir og miklar lækkanir í hinum ýmsu liðum vísitölunnar sem munu jafnast út að mestu en heildaráhrifin verða að mati bankans líklega til lækkunar.

Útsöluáhrif munu vega þungt til lækkunar vísitölunnar í janúar og vega þannig á móti verðbólguþrýstingi sem annars kæmi fram. Hátt eldsneytisverð gengur nú til baka að hluta og hefur því einnig talsverð áhrif til lækkunar. Þá er útlit fyrir lækkun matvöruverðs vegna sterkrar krónu. Verðbólguþrýstingur er hins vegar mikill sem stendur. Útlit er fyrir mikla hækkun á húsnæðisverði og annað vegna húsnæðis í vísitölunni mun einnig hækka umtalsvert í kjölfar nýs og hærra fasteignamats. Mikið er um gjaldskrárhækkanir sem taka gildi í janúar. Komugjöld á heilsugæslustöðvum hækka verulega, orkureikningur landsmanna mun hækka ásamt leikskólagjöldum, sjónvarpsáskrift og fleiru.