Greining Íslandsbanka spáir 4,2% hagvexti á árinu og 3,6% vexti á því næsta í nýútgefinni þjóðhagsspá bankans. Þar segir að myndarlegur vöxtur innlendrar eftirspurnar leiði hagvöxt í ár en útflutningsvöxtur, einkum drifinn af ferðaþjónustu, sigli í kjölfarið. Spáin gerir ráð fyrir að viðskiptahalli nemi 1,4% af landsframleiðslu í ár en að 2% afgangur verði á næsta ári.

Fram kemur að verðbólga verði þrálát og að útlit sé fyrir að hún verði yfir 4% þolmörkum Seðlabanka Íslands út árið, 4,4% að meðaltali á árinu, en taki að hjaðna á næsta ári og verði komin að markmiði árið 2023. Styrking krónunnar samhliða fjölgun ferðamanna muni slá á verðbólguna, en áætlað er að styrkingin muni nema 3,6% á árinu og 5,1% á því næsta.

Jafnvægisgildi stýrivaxta um 3,5%

Reiknað er með að hækkunarferli stýrivaxta haldi áfram ef ekki verður verulegt bakslag í efnahagsbata. Þeir muni þannig hækka í 1,5% fyrir árslok, nái 2,5% um mitt næsta ár og 3,5% á síðari helming ársins 2023, sem er að mati bankans nærri jafnvægisgildi þeirra.

Raunverðshækkun íbúðaverðs mun nema 7,2% á árinu samkvæmt spánni og mun hækkunin halda áfram næstu tvö árin en verði þó hægari en í ár, tæplega 4% árið 2022 og tæpt 1% árið 2023.

Þá væntir bankinn þess að meðaltalsatvinnuleysi á þessu ári verði 7,6%. Atvinnuleysi hefur nær helmingast frá ársbyrjun og væntir bankinn þess að það haldi áfram að hjaðna, verði 4,3% á næsta ári og 3,7% árið 2023.