Íslandsbanki spáir mikilli bílasölu í ár. Í Morgunkornum Greiningar Íslandsbanka kemur fram að árið fer afar vel af stað en seldir voru 80% fleiri nýjar bifreiðar nú í janúar en í sama mánuði í fyrra. Svo virðist sem sterk króna sé þar að skila sér í aukinni bifreiðasölu. Sagan kennir að afar náið samhengi er á milli þróunar kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna og sölu nýrra bifreiða. Bifreiðasalan er þannig ágætist hitamælir á hagkerfið - í uppsveiflunni er salan mikil en lítil í niðursveiflunni.

Íslendingar nálgast nú hápunkt hagvaxtarskeiðsins og reiknar bankinn með því að í ár mun kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukast um tæplega 4%. Þessi vöxtur mun skila sér í aukinni bifreiðasölu. Ekki skiptir minna máli að krónan er sterk og miðað við spá bankans mun hún verða að meðaltali tæplega 6% sterkari í ár en á síðasta ári. Nokkuð svigrúm virðist til aukinnar sölu þar sem í umferð eru um 145 þúsund fólksbifreiðar hér á landi en um 170 þúsund íbúar með ökuskírteini. Þá fjölgar ferðamönnum stöðugt. Á síðasta ári voru þeir 360 þúsund og fjölgaði um 40 þúsund frá árinu á undan. Loks ber að nefna að um síðustu áramót voru skráð 47 þúsund fyrirtæki hér á landi en nokkur hluti bílaflotans er jafnan í eigu fyrirtækja. Þó svo að bifreiðastofninn sé stór virðist vera fullt svigrúm til vaxtar. Bankinn spáir því að í ár verði seldar 14 þúsund nýjar fólksbifreiðar en spá þess efnis var sett fram á fundi sem Glitnir stóð fyrir nú í morgun.

Bankinn telur líklegt að árið í ár verði toppárið í bifreiðasölu á þessu hagvaxtartímabili. Ef spáin um ríflega fimmtungs lækkun á verðgildi krónunnar á milli áranna 2005 og 2006 rætist er líklegt að sala fólksbifreiða dragist nokkuð saman á milli þessara tveggja ára. Sagan kennir að slíkri gengislækkun geti fylgt skarpur samdráttur í bifreiðasölu. Þarf ekki að fara lengra aftur en til ársins 2001 til að finna slíkt dæmi. Reiknar bankinn með því að seldir verði 10 þúsund nýjar fólksbifreiðar á næsta ári sem er tæplega 29% minni sala en reiknað er með í ár.