Greining Íslandsbanka spáir því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 6. febrúar næstkomandi. Í Morgunkorni Greiningarinnar segir að meginforsenda spárinnar sé að verðbólgan hafi þróast í takt við spá Seðlabankans og að endurskoðun kjarasamninga hafi nú í upphafi árs verið lent án þess að launahækkanir umfram hin samningsbundnu 3,25% kæmu til.

Þessu til viðbótar hefur heldur hægt á hagvextinum og bendir margt til þess að hann hafi verið hægari á síðast ári en fyrri áætlun bankans gerir ráð fyrir. Einnig er krónan nú nánast óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun.

„Í yfirlýsingu sem peningastefnunefnd bankans birti vegnar síðustu vaxtaákvörðunar sinnar, sem var 12. desember síðastliðinn, segir að hvort nafnvextir bankans verða óbreyttir á næstunni er m.a. háð því að endurskoðun kjarasamninga á nýju ári samrýmist hjöðnun verðbólgu að markmiðinu. Reiknum við með því að þessi setning falli brott nú í ljósi ofangreindrar niðurstöðu í endurskoðun kjarasamninga. Eftir stendur þá sú skoðun nefndarinnar, sem eflaust verður haldið inni að okkar mati í næstu yfirlýsingu og finna má í síðustu málsgrein yfirlýsingarinnar, að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar. Mun nefndin eflaust áfram leggja áherslu á að stærsti áhættuþáttur verðbólguþróunarinnar á næstunni er gengi krónunnar,“ segir í Morgunkorninu.