Greining Íslandsbanka spáir því í Morgunkorni sínu að Seðlabankinnmuni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 20. mars næstkomandi. Meginforsenda spárinnar er að krónan hefur styrkst talsvert undanfarið og hagvöxtur undanfarið hefur verið öllu hægari en Seðlabankinn hafði reiknað með í sinni nýjustu spá. Verðbólguhorfur hafa því batnað nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun.

Á móti vegur að verðbólgan hefur aukist nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun og verður verðbólga væntanlega nokkuð yfir spá Seðlabankans fyrir fjórðunginn. Þá er verðbólguspá Seðlabankans nokkuð bjartsýn varðandi hversu hratt bankinn reiknar með hjöðnun verðbólgunnar á næstu mánuðum. Við reiknum með að verðbólgan hjaðni, en hægar en Seðlabankinn spáir.

Greiningin telur að vegna þess hve hægur efnahagsbatinn er um þessar mundir og vegna þess að verðbólgan ætti að hjaðna nokkuð á næstu mánuðum muni peningastefnunefnd Seðlabankans halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út þetta ár. Í þessu sambandi minnir Greiningin á þau orð sem Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, lét falla í viðtali við fréttaveituna Reuters 12. febrúar síðastliðinn þar sem hann sagði að vextir bankans gætu orðið óbreyttir út árið og beiting inngripa myndi líklega hafa í för með sér að stýrivextir yrðu óbreyttir á næstu mánuðum.