Greining Íslandsbanka telur að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína um 0,5 til 0,75 prósentustig samhliða útgáfu Peningamála þann 2. desember næstkomandi. Stýrivextir bankans eru nú 10,25% og telja Íslandsbankamenn að hæst fari hann með vexti sína í 12% á næsta ári.

"Seðlabankinn hefur gefið mjög sterklega til kynna að frekari vaxtahækkun sé framundan og að stýrivextir bankans muni jafnvel fara hærra en í síðustu uppsveiflu en þá fóru þeir hæst í 11,4%. Væntingar um frekari vaxtahækkun hafa stutt við gengi krónunnar á síðustu vikum ásamt útgáfu erlendra aðila á skuldabréfum í krónum en sú útgáfa hefur farið úr engu í yfir 100 milljarða króna á mjög stuttum tíma," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Gengi krónunnar tók að lækka lítillega í síðustu viku eftir nær samfellda hækkun meirihlutann af október. Gengislækkun þessa virðist mega rekja til ýmissa þátta svo sem sögusagna um að einn helsti milligönguaðilinn í útgáfu erlendra skuldabréfa í krónum myndi bíða með frekari útgáfu fram yfir uppgjör sitt núna um mánaðarmótin. Einnig virðast væntingar um hjaðnandi verðbólgu á allra næstu mánuðum hafa dregið úr styrk krónunnar á síðustu dögum segir í Morgunkoni Íslandsbanka.

ÞAr er bent á að tölur um mikinn halla á vöruskiptum við útlönd sem birtar voru í síðustu viku rýrðu verðgildi krónunnar en hallinn reyndist hafa verið nokkuð meiri í september en spáð var. Ummæli stjórnmálamanna í þá átt að skynsamlegt væri að auka gjaldeyriskaup Seðlabankans hafa ef til vill einnig átt þátt í gengislækkun krónunnar síðustu daga. Í morgun hefur gengi krónunnar hins vegar hækkað nokkuð á ný eftir að fregnir bárust af nýrri erlendri skuldabréfaútgáfu upp á 3 milljarða króna.

"Ef spá okkar gengur eftir um 0,5 til 0,75 prósentustiga vaxtahækkun Seðlabankans í byrjun desember, þá má vænta þess að gengi krónunnar hækki enn frekar og útgáfa erlendra skuldabréfa í krónum aukist áfram af krafti. Í ljósi þessa teljum við að gengi krónunnar hafi ekki enn náð hámarki og muni hækka frekar á næstu vikum og mánuðum," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.