Íslandsbanki hefur lokið útboði vegna stækkunar á tveimur flokkum sértryggðra skuldabréfa sem voru teknir til viðskipta í kauphöllinni í mars. Annars vegar var um að ræða útgáfu til sjö ára og var flokkurinn stækkaður um 635 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 2,90%. Hins vegar var um að ræða flokk til tólf ára sem var stækkaður um 850 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,48%.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að nokkur umframeftirspurn hafi verið eftir bréfunum en heildareftirspurnin nam tæpum 2,2 milljörðum króna.

Stefnt er á að bréfin verði tekin til viðskipta í kauphöllinni 10. maí næstkomandi.

Alls hefur Íslandsbanki gefið út sértryggð skuldabréf upp á rúma 8,8 milljarða króna frá fyrstu útgáfu í desember í fyrra.