Íslandsbanki hefur lokið útboði vegna stækkunar á tveimur flokkum sértryggðra skuldabréfa sem teknir voru til viðskipta í kauphöll í mars á þessu ári. Annars vegar var flokkur sem er til 7 ára stækkaður um 400 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 2,8% og hins vegar var flokkur sem er til 12 ára stækkaður um 950 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,2%.

Tilkynnt var um þetta til Kauphallar í dag. Heildarstærð fyrri flokksins er nú 2.860 milljónir og er heildarstærð hins flokksins 3,3 milljarðar króna. Alls hefur bankinn gefið út sértryggð skuldabréf að upphæð um 11,4 milljarðar króna.

Fram kemur að bréfin hafi verið seld til breiðs hóps fagfjárfesta. Heildareftirspurn var 1.890 milljónir og var 71,4% tilboða tekið. Stefnt er að því að taka bréfin til viðskipta þann 15. nóvember næstkomandi.