Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka, segir það mjög jákvætt að íslenskur banki hafi nú gefið út ótryggð skuldabréf erlendis. Hann segir kjörin í útgáfu Arion banka eðlileg á þessum tíma og vera eins og búast mátti við. „Við höfum kannað þennan möguleika líka en ákveðið að hinkra. Við erum að skoða útgáfu á árinu. Þróunin hefur verið mjög góð,“ segir Jón Guðni og vísar til niðurstöðu Icesave-málsins og hækkun matsfyrirtækja á lánshæfismati ríkisins og TM.

„Það gefur von um að bankinn verði í fjárfestingarflokki þegar þar að kemur,“ segir hann. Stefnt er að því að Íslandsbanki fái lánshæfismat á þessu ári eða í allra síðasta lagi á því næsta. Ferlið tekur um 3 til 9 mánuði, að sögn Jóns Guðna. Stjórnendur Íslandsbanka hafa enn sem komið er ekki óskað eftir lánshæfismati. Þeir hafa þó oft fundað með forsvarsmönnum erlendu matsfyrirtækjanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.