Íslandsbanki stefnir á að skrá bréf sín á markað, bæði hér heima og erlendis að því er haft er eftir Jóni Ómarssyni fjármálastjóra í viðtali við Bloomberg. Segir hann að helst komi til greina að skrá bréfin á einhverju Norðurlandanna eða í London.

Jón segir að gjaldeyrishöftin setji strik í reikninginn, en með því að skrá bankann bæði á Íslandi og erlendis væri hægt að draga úr áhrifum þeirra á bankann.

Áður en hægt verður að fara af stað með skráninguna verði hins vegar að fá á hreint hvernig og hvort hægt verði að greiða út arð til erlendra hluthafa í erlendri mynt.