Íslandsbanki hefur ákveðið að sækja formlega um leyfi til fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg um stofnun banka þar í landi. Tilgangurinn með því er að útvíkka starfsemi Íslandsbanka í Lúxemborg og bjóða alþjóðlega einkabankaþjónustu í samræmi við alþjóðlega þjónustu bankans á öðrum sviðum. Gert er ráð fyrir að bankinn hefji starfsemi á vormánuðum næsta árs.

Bankaráð Íslandsbanka samþykkti á fundi sínum í lok september síðastliðnum að útvíkka starfsemi bankans í Lúxemborg með því að setja á fót banka. Unnið hefur verið að undirbúningi þess á haustmánuðum og samþykkti bankaráð á fundi sínum í dag að sækja formlega um leyfi til fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg um stofnun banka þar í landi.
Íslandsbanki hefur frá miðju ári 2003 starfrækt útibú í Lúxemborg og er góð afkoma á fyrsta heila starfsári þess. Áætluð útlán í árslok eru um 30 milljarðar króna og gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti í útlánastarfseminni á næsta ári.

Lánveitingar útibúins í Lúxemborg eru einkum til viðskiptavina í Skandinavíu. Tilgangur með stofnun banka í Lúxemborg er að útvíkka starfsemina og bjóða alþjóðlega einkabankaþjónustu í samræmi við alþjóðlega þjónustu bankans á öðrum sviðum. Gert er ráð fyrir að bankinn hefji starfsemi á vormánuðum næsta árs, að Allan Strand Olesen, sem veitt hefur útibúinu í Lúxemborg forstöðu, mun stýra hinum nýja banka, að því gefnu heimild fáist fyrir stofnun bankans frá yfirvöldum í Lúxemborg segir í tilkynningu frá bankanum.