*

laugardagur, 4. júlí 2020
Innlent 29. apríl 2020 09:15

Íslandsbanki stundi skuggastjórn

Stjórnarmaður í Borgun telur Íslandsbanka hafa misnotað vald sitt — bankinn vísar ásökunum bug.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Í stað þess að vera fyrirmynd hvað góða stjórnarhætti varðar hafa bankastjóri og fjármálastjóri Íslandsbanka (ÍSB) „beitt skuggastjórnun og misnotað vald sitt“. Þetta segir í bréfi sem Óskar Veturliði Sigurðsson, stjórnarmaður Borgunar til fimm ára, sendi nýverið stjórn Íslandsbanka og forstjóra Bankasýslu ríkisins og Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Í byrjun síðasta mánaðar sendi Óskar bréf á fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) og er nokkur samhljómur milli bréfanna tveggja. Fyrra bréfið var sent í kjölfar þess að hann neitaði að undirrita yfirlýsingu um góða stjórnarhætti sem fylgja átti ársreikningi Borgunar. Með bréfinu nú vill stjórnarmaðurinn upplýsa stjórn og eigendur ÍSB um brot á starfsreglum stjórnar Borgunar, góðum stjórnarháttum og jafnræði hluthafa.

Í bréfinu er rakið hvernig stjórnarmaður og forstjóri Borgunar funduðu í minnst níu skipti með fulltrúum ÍSB án þess að öðrum stjórnarmönnum hafi gefist kostur á að sitja þá. Engar skriflegar fundargerðir séu til um það sem fram fór og stjórn félagsins hafi heldur ekki fengið upplýsingar um það. Umrædd fundahöld hafi hafist fyrir um tveimur árum síðan eftir að „bankastjóri og fjármálastjóri Íslandsbanka skiptu út tveimur stjórnarmönnum í kjölfar ráðningar nýs forstjóra“ þar sem stjórn hafði ekki fylgt línu bankastjóra ÍSB í þeim efnum.

„Bankar og þá sérstaklega bankar í eigum ríkisins ættu að vera fyrirmynd í að framfylgja lögum og góðum stjórnarháttum og hafa enn ríkari skyldur til að tryggja jafnræði hluthafa í þeim fyrirtækjum sem þau eiga hlut í. Þvert á það þá hefur bankastjóri og fjármálastjóri Íslandsbanka beitt skuggastjórnun og misnotað vald sitt með þessum hætti og skilur þetta eftir sig margar spurningar,“ segir í bréfinu.

Sett er út á ýmislegt fleira sem Óskar telur ekki samræmast lögum eða góðum stjórnarháttum. Bankinn beini ekki fyrirspurnum til stjórnar dótturfélagsins, líkt og lög um hlutafélög kveði á um, og þá hafi forstjóri félagsins einn tekið ákvörðun um að hætta við hækkun á verðskrá Borgunar til ÍSB. Einn hluthafi félagsins hafi hagnast á þeirri ákvörðun um fram aðra. Þá hafi forstjóri Borgunar og stjórnarformaður haldið í tvígang kynningu fyrir stjórnendur hjá ÍSB án vitundar stjórnar.

„Undirritaður skorar á forstjóra, fjármálastjóra, stjórn og eigendur ÍSB að standa við eigin stjórnarháttayfirlýsingu, [...] [sjái] til þess að framvegis velji bankinn óháða stjórnarmenn í Borgun [og] að samskiptin fari að meginstefnu fram á hluthafafundum og í gegnum stjórn Borgunar en ekki einstaka starfsmenn og stjórnarmenn eins og hefur verið til þessa,“ segir í bréfinu.

Óskar Veturliði hefur setið í stjórn Borgunar fyrir hönd Eignarhaldsfélagsins Borgunar, samlagsfélags í eigu Einars Sveinssonar og Stálskipa, en félagið er næststærsti eigandi Borgunar með 32,4% hlut. Félagið kom inn í eigendahóp Borgunar eftir að það keypti hlut Landsbankans árið 2014. Kaupverð var kringum 2,2 milljarðar.

Ársfundur Borgunar er á dagskrá á morgun en hann hafði upphaflega átt að fara fram í upphafi mars. Verður ný stjórn kjörin á fundinum en af bréfi Óskars má ráða að hann sé á útleið. Í um miðjan síðasta mánuð var tilkynnt um kaup Salt Pay Co. Ltd. á Borgun en kaupverð var um fimm milljarðar króna. Heimildir blaðsins herma að áhugi hafi verið bæði meðal innlendra og erlendra fjárfesta og að leiðin að þátttöku í söluferlinu hafi ekki verið jafn opin og af er látið. Kaupin eru háð samþykki FME.

Í Markaðnum í dag er greint frá viðbrögðum Íslandsbanka vegna bréfsins.  Telur bankinn samskipti sín og Borgunar í fullu samræmi við lagafyrirmæli um samskipti fjármálafyrirtækja innan sömu samstæðu. „Ýmis ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og laga um ársreikninga og reglur settar samkvæmt þeim mæli fyrir um ítarleg samskipti félaga innan sömu samstæðu."

Stikkorð: Íslandsbanki Borgun