Lækkun vísitölu neysluverðs nú eykur líkur á því að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir á morgun segir Greining Íslandsbanka. Peningastefnunefnd bankans fundar nú í dag og mun tilkynna á morgun um ákvörðun sína.

Reiknar Greining Íslandsbanka með því að nefndin ákveði að lækka vexti bankans lítillega, og þá á þann veg að vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækki um 0,25 prósentur í 8,25% en vextir á viku veðlánum (hinir hefðbundnu stýrivextir) um 0,5 prósentur í 9,5%.

Þetta er breyting frá þeirra fyrri spá en fyrir birtingu vísitölu neysluverðs í morgun reiknuðum þeir með því að peningastefnunefndin myndi halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á morgun.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar vegna ákvörðunar hennar 9. desember síðastliðinn kemur fram að haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar.

Nú hefur verðbólgan hjaðnað umtalsvert frá síðustu vaxtaákvörðun og gengi krónunnar haldist nokkuð stöðugt. Því virðist sem þau tvö skilyrði sem peningastefnunefndin setur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds vera til staðar segir í Morgunkorni Íslandsbanka.