Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur farið hækkandi undanfarna daga og var við lok dags í gær á bilinu 3,49% - 3,63. Líkt og verið hefur er ávöxtunarkrafa HFF 14 úr línu við aðra flokka íbúðarbréfa og er munurinn á bilinu 10 - 14 punktar. Að gærdeginum undanskildum hefur velta á skuldabréfamarkaði verið mikil og greinilega hægt að merkja aukinn kaupáhuga eftir hækkun ávöxtunarkröfu. Er það álit Greiningar ÍSB að nú sé kauptækifæri á markaði.

"Líklegt er að lífeyrissjóðir, sem ekki hafa sýnt mikinn kaupáhuga þegar krafan fer niður fyrir 3,5%, sýni aukin áhuga á meðan krafan helst yfir því marki. Teljum við að kaupáhugi muni þrýsta ávöxtunarkröfunni allt niður að 3,5% aftur , Að okkar mati hefur ekkert komið fram sem breytir spá okkar í síðasta Markaðsyfirliti um að ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa verði í kringum 3,5% á næstu vikum og er hún því óbreytt. Það sem af er morgni hefur ávöxtunarkrafa HFF 14 og HFF 34 þokast niður á við en er óbreytt á öðrum verðtryggðum flokkum," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.