Greining Íslandsbanka telur að vaxandi viðskiptahalli lýsi því að hluta a.m.k. að krónan sé ofmetin um þessar mundir og að krafan um ytra jafnvægi þjóðarbúsins muni merkja að gengið muni lækka þegar fram í sækir. Nákvæm tímasetning í þeim efnum eða hversu mikil sú lækkun verður er slungið að segja með vissu en líkur má leiða að því að slíkt muni eiga sér stað eitthvað áður en að lokum yfirstandandi stóriðjuframkvæmda kemur 2007.

Viðskiptahallinn á fyrsta ársfjórðungi mældist 13 ma.kr. og er það ríflega 10 mö.kr. meiri halli en mældist á sama tímabili í fyrra samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti í gær. Breytingin á milli ára ber með sér vísbendingu um að hallinn í ár verði meiri en hallinn í fyrra. Á síðasta ári var viðskiptahallinn 43 ma.kr. eða um 5,0% af landsframleiðslu en í ár stefnir hallinn í að hann verði um 64 ma.kr. eða 7,5% af landsframleiðslu samkvæmt þjóðhagsspá Greiningar ÍSB. Vaxandi viðskiptahalla má rekja til tveggja þátta helst. Annars vegar er um að ræða auknar fjárfestingar og þá helst fjárfestingar í stóriðju sem hafa knúið fjárfestingarstigið í hagkerfinu ofar en það hefur verið um langa hríð. Hins vegar er um að kenna litlum og hratt minnkandi þjóðhagslegum sparnaði sem endurspeglar þá hratt vaxandi neyslu. Viðskiptahallinn er áhyggjuefni því hann lýsir miklu og vaxandi ytra ójafnvægi þjóðarbúsins sem ef það fer út böndunum gæti á endanum kostað harkalega aðlögun hagkerfisins að nýju jafnvægi. Í því sambandi er ekki víst að heppnin verði jafn mikil og þegar hagkerfið leitaði ytra jafnvægis eftir hið mikla þensluskeið 1996-2001 og viðskiptakjör þróuðust á sama tíma í hagkerfinu með hagfelldum hætti. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.