Uppgjör stoðtækjafyrirtækisins á síðasta ársfjórðungi var undir væntingum þrátt fyrir söluvöxt á flestum mörkuðum. Greining Íslandsbanka bendir á að rekstrarhagnaður fyrirtækisins upp á 16,4 milljónir dala hafi verið 16,7% af tekjum fyrirtækisins. Jafn lágt hlutfall hefur ekki sést á árinu. Til samanburðar var markmið Össurar að ná 20% til 21% framlegð.

Uppgjör Össurar var birt í gær. Gengi hlutabréfa fyrirtækisins hefur það sem af er degi fallið um 3,14% í Kauphöllinni.

Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka að deildin hafi gert ráð fyrir að tekjur myndu vaxa um 5,6% á fjórðungnum miðað við sama tíma ári fyrr. Niðurstaðan varð hins vegar sú að tekjur jukust um 3,6%. Það er þriðjungi minna en spáin hljóðaði upp á.

Greiningin segir að framleiðsla á stoðtækjum fyrirtækisins hafi verið flutt frá Bandaríkjunum til Mexíkó og ætti það að skila 4 milljóna dala sparnaði og bæta framlegð um 1%. Bent er sérstaklega á að miklu muni um launakostnaðinn. Í Mexíkó sé hann aðeins fjórðungur af launakostnaði í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Ættu að greiða út arð

Össur hefur aldrei greitt hluthöfum sínum arð til þessa. Fyrirtækið var skráð á markað árið 1999. Greining Íslandsbanka bendir á að fyrirtækið hafi lýst yfir áhuga á ytri vexti, svo sem með kaupum á fyrirtækjum í stoðtækjageiranum. Hins vegar hafi reynst erfitt að finna ákjósanlega kosti. „Ef stór fyrirtækjakaup eru ekki í spilunum er líklegt að félagið fari að hefja arðgreiðslur,“ að því er fram kemur í Morgunkorninu.