The Banker, tímarit sem gefið er út af Financial Times og er eitt víðlesnasta fjármálatímarit í heimi, hefur valið Íslandsbanka sem banka ársins á Íslandi árið 2014.

Í rökstuðningi fyrir valinu kom fram að Íslandsbanki hefði náð árangri í rekstri bankans með kostnaðaraðhaldi, aukningu tekna en um leið átt ánægðustu viðskiptavinina í bankakerfinu samkvæmt Ánægjuvoginni. Þá sé Íslandsbanki með afar sterkt eiginfjárhlutfall í alþjóðlegum samanburði. Að auki hafi bankinn náð að auka fjölbreytni í fjármögnun hans með árangursríkum hætti, t.a.m. með útgáfu erlendra skuldabréfa í sænskum krónum og evrum.

Þá kemur fram að Íslandsbanki sé stærsti útgefandi sértryggðra skuldabréfa á Íslandi auk þess sem hann hafi verið fyrstur íslenskra fjármálafyrirtækja frá haustinu 2008 til að gefa út víxla skráða í kauphöll Íslands. Einnig er tekið tillit til þess að Íslandsbanki hefur aukið markaðshlutdeild sína verulega á undanförnum árum, bæði í gegnum sameiningar við önnur fjármálafyrirtæki og ný viðskipti.

Fyrr á árinu valdi hið virta fjármálatímarit Euromoney Íslandsbanka sem besta bankann og fjárfestingabankann hér á landi. Það sem réð úrslitum þar var einnig skýr markmiðasetning og frumkvæði í að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans.

„Viðurkenningar frá The Banker og Euromoney fyrr á árinu staðfesta að við erum á réttri leið og eru um leið hvatning fyrir okkur að gera betur. Við höfum ávallt lagt áherslu á skýra markmiðasetningu og stefnumótun og fengið starfsfólk bankans með í þá vinnu. Á þessu ári höfum við markað nýja stefnu sem byggir á því að efla og þróa þjónustu við viðskiptavini enn frekar og einfalda starfsemina í þágu viðskiptavina okkar. Þá erum við staðráðin í að stunda ábyrga bankastarfsemi sem grundvallast á heilbrigðum viðskiptaháttum og traustum rekstri. Ég er stolt af þessari viðurkenningu sem er vitnisburður um frábært starf starfsfólks Íslandsbanka,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.