Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Íslandsbanka besta bankann á Íslandi. Hlýtur bankinn viðurkenningu tímaritsins fjórða árið í röð, en fyrirtækið útnefnir árlega bestu bankana í tæplega 100 löndum og veitir þeim viðurkenninguna Awards for Excellence.

Var horft til góðs árangurs í rekstri bankans og stefnu hans almennt í niðurstöðu dómnefndar. Þá var einnig litið til framtíðarsýnar Íslandsbanka um að veita bestu bankaþjónustu í landinu og árangurs hans í nýsköpun við að einfalda bankaviðskipti. Viðskiptavinir bankans nýta sér app Íslandsbanka í auknum mæli og eru virkir notendur þess nú um 50 þúsund.

Í fyrra var hagnaður Íslandsbanka 20,6 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár 10,8%. Lánshæfismat bankans samkvæmt Standard & Poor´s er í jákvæðum horfum og stefnir í frekari einföldun í rekstri, en í lok þessa árs verða útibú bankans 14 í heildina.