Tölvuþrjótar sem komist hafa yfir íslenskan netfangalista, sem er ekki bundinn við einn banka, hafa sent tölvupóst þar sem viðkomandi aðilar eru beðnir um að staðfesta notendaupplýsingar með því að tengjast vefslóð sem gefin er upp í póstinum. Líkt er eftir útliti vefsíðu bankans í þeim tilgangi að blekkja þá aðila sem fá tölvupóstinn til að gefa upp notendanafn, persónuupplýsingar eða kreditkortanúmer.

Íslandsbanki ítrekar í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum að bankinn sendir aldrei tölvupóst til viðskiptavina þar sem þeir eru beðnir um að staðfesta notendanafn, lykilorð, persónuupplýsingar eða fjárhagsupplýsingar.

Íslandsbanki segir að öruggt sé, eftir sem áður, að tengjast netbankanum í gegnum vefsíðu bankans. Viðskiptavinir Íslandsbanka hafi verið upplýstir um málið.