Skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar á miðvikudag var vel heppnað að mati Greiningar Íslandsbanka. Í Morgunkorni Greiningar segir að bæði hafi þátttaka verið mikil og að þau kjör sem borginni stóðu til boða hafi verið mun hagstæðari en þau hafi verið að undanförnu.

Alls bárust tilboð fyrir 1.225 milljónir að nafnvirði í lengri flokkinn, RVK 09 1, á kröfu sem var á bilinu 3,02%-3,30%. Ákvað borgin að taka tilboðum fyrir 600 milljónir á ávöxtunarkröfunni 3,02%. Síðasta útboð borgarinnar á flokknum fór fram í ágúst síðastliðinn og var niðurstöðukrafan þá 3,40%. Bötnuðu kjör borgarinnar þar með um 38 punkta á milli útboða, og í raun er hér um að ræða hagstæðustu kjör borgarinnar á flokknum frá því hann leit fyrst dagsins ljós.

Í styttri flokkinn, RVK 19 1, bárust alls tilboð fyrir 1.085 milljónir á kröfubilinu 2,16%-2,45%. Borgin ákvað að taka tilboðum fyrir 210 milljónir á ávöxtunarkröfunni 2,16%, sem er 10 punktum lægri krafa en í síðasta útboði á flokknum sem fór fram í janúar.

Í Morgunkorninu segir að borgin áætli að gefa út bréf fyrir 3,3 milljarða króna á árinu.