Nafni Íslandsbanka og dótturfélaga erlendis hefur verið breytt í Glitnir, segir í tilkynningu.

Starfsmönnum var greint frá breytingunni á starfsmannafundi í dag, sem sóttur var af starfsmönnum bankans á Íslandi, í Noregi, Danmörku, Lúxemborg og London.

Ástæðan fyrir því að taka upp nýtt nafn er sögð vera að bankinn hefur þróast í alþjóðlegt fjármálafyrirtæki, með starfsemi í fimm löndum. Bankinn telur heimamarkaði sína vera Ísland og Noreg. Í tilkynningunni segir að síðar á þessu ári verða opnaðar skrifstofur í Halifax í Kanada og Shanghai í Kína.

Bjarni Ármannsson, forstjóri, segir að breyttur banki kalli á breytingar á nafni. ?Við störfum nú á alþjóðlegum fjármálamarkaði og það kallar á ákveðnar breytingar. Nöfn fyrirtækja verða að taka mið af því svæði sem þau starfa á, sem í okkar tilviki þýðir að nafnið þarf að henta til notkunar um allan heim."

"Við vorum í þeirri einstöku stöðu að eiga gott íslenskt nafn sem er jafnframt þekkt vörumerki, Glitnir, sem uppfyllir öll þau skilyrði sem prýða gott nafn; Það hefur jákvæða merkingu í hugum Íslendinga, á sér sögulega skírskotun, er bæði íslenskt og norrænt í senn, er auðvelt í framburði á helstu tungumálum og inniheldur eingöngu alþjóðlega stafi," segir Bjarni.

Hið nýja nafn á rætur að rekja til Norrænnar goðafræði en í Gylfaginningu segir frá Glitni sem var heimili Forseta, sonar Baldurs og Nönnu. Sagan segir að þaðan hafi allir gengið sáttir.

Sögu bankans má rekja til stofnunar Íslandsbanka 1904. Útvegsbankinn tók við starfseminni 1930 og árið 1990 sameinaðist hann Iðnaðarbanka Íslands, Verslunarbanka Íslands og Alþýðubankanum í nýjum Íslandsbanka. Tíu árum síðar sameinuðust Íslandsbanki og Fjárfestingabanki atvinnulífsins, FBA, sem stofnaður hafði verið tveimur árum áður.

Síðla árs 2004 keypti Íslandsbanki KredittBanken í Noregi og skömmu síðar BNbank, fjórða stærsta banka Noregs. Þá hefur bankinn opnað skrifstofur í Lúxembourg, London og Kaupmannahöfn. Á undanförnum mánuðum hefur bankinn keypt verðbréfafyrirtækið Norse og meirihluta í Fasteignamiðlunarfyrirtækinu Union í Noregi og tilkynnt um opnun skrifstofa í Kanada og Kína.

Bankinn skilaði metafkomu á árinu 2005 og var hagnaður hans eftir skatta rúmir nítján milljarðar króna.