Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. hefur verið falið að annast formlegt ferli sem lýtur að mögulegri sölu á 49% hlut í Skeljungi hf., S fasteignum ehf., Ö fasteignum og Birgðastöðinni Miðsandi ehf. sem eru í dag í eigu Miðengis ehf., dótturfélags Íslandsbanka hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka. Til upprifjunar má taka fram í ágúst í fyrra eignuðust BG Partners 51% hlut í Skeljungi en forveri Íslandsbanka, Glitnir, sat áfram með 49% hlut eftir að hafa sölutryggt hluti í félaginu þegar Fons, félag í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar hafði reynt að selja félagið.

Í tilkynningunni frá Íslandsbanka kemur fram að söluferlið verður opið öllum áhugasömum fjárfestum sem uppfylla skilyrði til þess að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, einstaklingum sem hafa verulegan fjárhagslegan styrk og viðeigandi þekkingu, auk fyrirtækja sem höfðu eiginfjárstöðu sem var hærri en sem nemur 100 milljónum króna í árslok 2008.

Þó áskilur Íslandsbanki sér rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu í þeim tilvikum þegar fyrir hendi eru lagalegar takmarkanir á því að fjárfestir eignist ráðandi hlut í félaginu, svo sem vegna samkeppnisreglna.

Þá kemur fram að áhugasamir fjárfestar þurfa að fylla út trúnaðaryfirlýsingu ásamt því að leggja fram umbeðnar upplýsingar og nauðsynleg gögn sem staðfesta að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Framangreindu skal skilað til Fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka í samræmi við nánari upplýsingar um skil gagna og tilboða.

Móttaka trúnaðaryfirlýsinga og viðeigandi gagna hefst miðvikudaginn 25. nóvember og er síðasti frestur til að skila inn framangreindu vegna þátttöku í söluferlinu 1. desember kl. 16:00. Uppfylli fjárfestar ofangreind skilyrði fá þeir kynningargögn afhent á tímabilinu 26. nóvember til og með 2. desember. Kynningargögnin verða afhent með rafrænum hætti á netfang sem fjárfestar tilgreina í trúnaðaryfirlýsingu. Gert er ráð fyrir að óskuldbindandi tilboðum sé skilað til Íslandsbanka, mánudaginn 7. desember 2009, fyrir kl. 16:00, í lokuðu umslagi merkt í samræmi við nánari upplýsingar um skil gagna og tilboða.

Þá verður þeim fjárfestum sem leggja fram hæstu tilboðin og leggja fram trúverðugar upplýsingar um fjármögnun kaupanna, boðið til áframhaldandi þátttöku í söluferlinu og fá afhent ítarlegri gögn um félagið. Þá fá fjárfestar aðgang að nánari upplýsingum um starfsemi og fjárhag fyrirtækisins, en þeim ber svo að skila inn skuldbindandi tilboðum með fyrirvara um áreiðanleikakönnun í síðasta lagi mánudaginn 21. desember 2009. Skuldbindandi tilboð verða opnuð í viðurvist óháðs aðila. Í kjölfarið taka við viðræður við hæstbjóðendur.