Íslandsbanki, FKA, Félag kvenna í atvinnurekstri, og Opni háskólinn í Reykjavík standa fyrir frumkvöðlanámskeiði og frumkvöðlasamkeppni fyrir konur. Námskeið verður haldið í gerð viðskiptaáætlana sem verða metnar. Sá sem á bestu viðskiptaáætlunina hlýtur tvær milljónir króna í verðlaun frá Íslandsbanka.

Í tilkynningu er haft eftir Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka, að 50 fyrirtæki hafi verið stofnuð eftir frumkvöðlanámskeið sem þessi og þar orðið til 200 störf.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að námskeið í gerð viðskiptaáætlana hefjist 1. nóvember næstkomandi og muni Íslandsbanki niðurgreiða námskeiðagjaldið um 50%. Námskeiðið er alls 27 klukkustundir.

Viðskiptaáætlanirnar verða svo metnar og munu 5 bestu áætlanirnar komast áfram í frumkvöðlakeppnina þar sem þátttakendur fá ráðgjöf til að þróa áætlunina enn frekar. Besta áætlunin verður svo valin.

Skráning og nánari upplýsingar eru á vefsíðu Íslandsbanka .