Íslandsbanki hefur samþykkt að kaupa heildarhlutafé norska verðbréfafyrirtækisins Norse Securities ASA, segir í tilkynningu. Það hefur verið yfirlýst markmið Íslandsbanka að fara inn á norskan verðbréfamarkað frá því að bankinn keypti KredittBanken árið 2004 og BNbank 2005.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en gert er ráð fyrir að tekjur Norse Securities verði um 130 milljónir norskra króna á næsta ári.

Í tilkynningu Íslandsbanka segir að kaupin á Norse og frekari vöxtur Íslandsbanka á tengdum mörkuðum, styrkir bankann á sviði markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og fasteignafjármögnunar. Bjarni Ármansson, forstjóri bankans, segir að Íslandsbanki hafi vaxið á arðbæran hátt með yfirtökum í Noregi.

?Kaup Íslandsbanka á Norse skapar bankanum stöðu á verðbréfamarkaðnum í Noregi og góðan grunn til frekari vaxtar. Íslandsbanki áformar frekari vöxt á þessum hluta fjármálaþjónustu og ætlar m.a. að styrkja Norse á sviði fyrirtækjaráðgjafar. Norse hefur stefnt að frekari stækkun en hefur vantað öflugan bakhjarl til þess," segir Bjarni.

Norse mun starfa áfram sem sjálfstæð eining og er það í takt við þann hátt sem Íslandsbanki hefur haft við yfirtökur á BNbank og KredittBanken í Noregi, segir í tilkynningu bankans. ?Markmið Íslandsbanka er að stuðla að vexti Norse með samþættingu starfseminnar við Markaðsviðskipti í Reykjavík og annarra starfsstöðva í Lúxemborg, Kaupmannahöfn, London, Ósló og Reykjavík", segir Bjarni.

Íslandsbanki hefur skilgreint Noreg og Ísland sem heimamarkaði sína og markmið bankans á norskum markaði hefur verið að renna frekari stoðum undir starfsemina þar í landi.

"Við munum halda áfram að styrkja stöðu okkar á norskum markaði. Þetta er mikilvægt skref á þeirri leið, við munum halda áfram með samþættingu starfsemi bankans í Noregi og leita nýrra tækifæra , sagði Frank Reite, framkvæmdastjóri Íslandsbanka í Noregi.

Yfirtakan er háð samþykki yfirvalda og niðurstöðum áreiðanleikakönnunar.