*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 25. október 2019 12:11

Íslandsflug frá Kína í bígerð

Kínverska flugfélagið Juneyao Air hyggst fljúga til Íslands næsta vor. Fleiri kínversk flugfélög skoða Íslandsflug.

Ritstjórn
Air China er eitt þeirra kínversku flugfélaga sem sögð eru undirbúa Íslandsflug.

Kínverska flugfélagið Juneyao Air hyggst hefja flug frá Shanghaí til Íslands næsta vor. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í morgun en samkvæmt heimildum blaðsins er áætlað að félagið fljúgi frá borginni Shanghaí til Íslands með viðkomu í Helsinki, allt að þrisvar í viku.

Einnig er greint frá því að fleiri kínversk flugfélög séu að skoða Íslandsflug. Tinajin Airlines hefði sótt um þrjá afgreiðslutíma í hverri viku á Keflavíkurflugvelli fyrir komandi vetur, en þeim áformum hafi verið seinkað til næsta árs. Þá hafi tvö önnur kínversk flugfélög Íslandsflug til skoðunnar; annars vegar ríkisflugfélagið Air China, sem er langstærsta flugfélag Kína, og hins vegar Beijing Capital Airlines, sem er í eigu kínverska flugrisans Hainan Airlines.

„Heimildarmenn Fréttablaðsins telja líklegra að áform Air China verði að veruleika en Beijing Capital Air­lines. Kannar Air China nú möguleika á flugi frá höfuðborginni Peking til Íslands með viðkomu í Kaupmannahöfn,“ segir enn fremur í frétt Fréttablaðsins.

Stikkorð: Íslandsflug Air China