FossHótel Reykjavík, sem er í eigu Íslandshótela, hefur ekki greitt húsaleigu þá fjóra mánuði sem hótelið hefur verið lokað og hafa samningar ekki náðst um lækkun leigu. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði í júní lögbann við úttekt bankaábyrgðar vegna hins leigða húsnæðis. Þetta er meðal þess sem lesa má úr hálfsársuppgjöri Íslandshótela.

Íslandshótel hefur gefið út skráð skuldabréf og var árshlutauppgjörið því sent til Kauphallarinnar. Þar kemur meðal annars fram að eigendur skuldabréfa félagsins hafi samþykkt í lok síðasta mánaðar skilmálabreytingar á því og undanþágur frá kvöðum sem af því leiða. Þeir frestir gilda út júní á næsta ári.

„Íslandshótel hefur gripið til umfangsmikilla ráðstafana til að bregðast við fækkun ferðamanna með því meðal annars að loka hótelum, bjóða sértilboð markaðssett fyrir innanlandsmarkað, víðtækum uppsögnum starfsmanna og almennri endurskipulagningu rekstrar. Rekstur félagsins hefur verið aðlagaður að framboði ferðamanna og miðar stefna félagsins að því að tryggja reksturinn og skap a sveigjanleika þannig að hægt verði að grípa skjótt til aðgerða um leið og ferðaþjónustan tekur við sér á nýjan leik,“ segir meðal annars í skýringum við uppgjörið.

Félagið hefur nýtt sér úrræði stjórnvalda, samið við viðskiptabanka sinn um framlengingu á lánasamningum, aðgengi að nýrri lánalínu og undanþágum frá fjárhagslegum skilmálum en nokkuð er síðan félagið braut skilmála lána til þess.

„Fosshótel Reykjavík hefur verið lokað síðan Covid-19 skall á eða frá 1. apríl s.l. Fosshótel Reykjavík hefur ekki greitt húsaleigu fyrir þá mánuði sem hótelið er lokað. Hafa samningaviðræður við leigusala ekki náðst um lækkun leigu á meðan hótelið er ekki í rekstri. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði lögbann á útgreiðslu bankaábyrgðar þann 23. júní s.l. [sic!] Fosshótel Reykjavík lagði fram réttarstefnu fyrir dómi þar sem farið er fram á annars vegar staðfestingu á lögbanni við útgreiðslu bankaábyrgðar vegna leigunnar og hins vegar lækkun á leigugreiðslum á meðan hótelið er lokað,“ segir í niðurlagi uppgjörsins.

FossHótel Reykjavík er staðsett í Þórunnartúni 1 en húsnæðið er í eigu Íþöku, sem aftur er í eigu Péturs Guðmundssonar, oft kenndum við EYKT.