*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 1. desember 2021 11:47

Íslandshótel fá frest út árið 2022

Skuldabréfaeigendur Íslandshótela samþykkja að framlengja frest um ár um fjárhagslegar kröfur gagnvart hótelkeðjunni.

Jóhann Óskar Jóhannsson
Fosshótel Reykjavík er í eigu Íslandshótela, en hótelið hefur verið nýtt sem farsóttarhús í kórónuveirufaraldrinum.
Haraldur Guðjónsson

Skuldabréfaeigendur Íslandshótela samþykktu í dag að framlengja frest um ár um fjárhagslegar kröfur gagnvart Íslandshótelum, stærstu hótelkeðju landsins. Frestunin tekur til tímabilsins 30. júní 2021 til og með 30. júní 2022.

Kröfurnar fela í sér að eiginfjárhlutfall án óefnislegra eigna skuli á hverjum prófunardegi vera lágmarks 20%. Jafnframt að vaxtaberandi skuldir sem hlutfall af rekstrarhagnaði (EBITDA) skuli ekki vera hærri en sjö á hverju tólf mánaða tímabili.

Íslandshótel þarf að standast fjárhagsleg skilyrði á ný frá og með prófunardeginum 31. desember, 2022, að því er kemur fram í tilkynningu frá Íslandshótelum til Kauphallarinnar.

Íslandshótel tapaði 2,7 milljörðum króna á síðasta ári og tapaði 659 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2021. Því hefur hótelkeðjan tapað meira en 3,3 milljörðum á þeim fjárhagstímabilum þar sem afleiðinga Covid-faraldursins hefur gætt, líkt og kom fram í grein Viðskiptablaðsins fyrr á árinu.

Stikkorð: Íslandshótel