Íslandshótel, stærsta hótelkeðja landsins, hagnaðist um 1,4 milljarða króna á síðasta ári sem er milljarði króna meira en fyrir ári. Sé tekið tillit til endurmats á fasteignum og lóðum félagsins, nam heildarafkoma ársins 1,77 milljörðum króna en var 2,65 milljarðar árið 2017. Endurmatið hefur ekki áhrif á rekstrarreikning félagsins.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 3,4 milljörðum króna miðað við tæpa 3 milljarða króna árið 2017. Rekstrartekjur námu 11,7 milljörðum í fyrra. Í skýrslu stjórnar segir að félagið sé vel í stakk búið að takast á við fall Wow air og launahækkanir í tengslum við kjarasamninga.

Eigið fé nam 16,8 milljörðum um áramótin, eignir 39,6 milljörðum og skuldir 22,8 milljörðum króna. Davíð Torfi Ólafsson er framkvæmdastjóri Íslandshótela.