*

fimmtudagur, 28. maí 2020
Innlent 30. mars 2020 14:03

Íslandshótel högnuðust um 2,6 milljarða

Hótelkeðjan velti 11,5 milljörðum í fyrra. Hafa þegar tryggt sér lánalínu frá viðskiptabanka til að verjast COVID-19.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður af rekstri Íslandshótela án endurmats fasteigna nam 1,1 milljarði króna á síðasta ári, en að teknu tilliti til endurmatsins nam hagnaðurinn 2,6 milljörðum króna. Árið áður nam hagnaður félagsins 1,8 milljarði króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi hótelkeðjunnar.

Rekstrartekjur Íslandshótela námu 11,5 milljörðum króna á síðasta ári og drógust saman frá fyrra ári þegar tekjurnar námu 12,1 milljörðum. Rekstrargjöld námu 8,2 milljörðum króna í fyrra og drógust saman um 500 milljónir frá fyrra ári.

Eignir Íslandshótela námu rúmlega 50 milljörðum á lokadegi síðasta árs og eigið fé nam rúmlega 19 milljörðum króna. 

Þegar tryggt sér lánalínu vegna áhrifa COVID-19

Fram kemur í ársreikningnum, undir liðnum skýrsla stjórnar, að félagið hafi þegar tryggt sér lánalínu hjá viðskiptabanka sínum, til að geta brugðist við áhrifum COVID-19. 

„Við búum nú við fordæmalausar aðstæður og ljóst er að afleiðingar af alheimsfaraldri Covid-19 veirunnar mun hafa veruleg áhrif á ferðaþjónustuna um heim allan, Íslandshótel fer ekki varhluta af því. Ekki er hægt að greina endanleg áhrif á rekstur Íslandshótela á meðan óvissa ríkir um hversu lengi ástandið varir. Félagið fylgist náið með þróun mála og vinnur að mótvægisaðgerðum í rekstri félagsins meðal annars mun félagið nýta sér úrræði ríkisstjórnarinnar sem lögð hafa verið fram í frumvarpi til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, auk þess sem félagið hefur tryggt sér lánalínu hjá viðskiptabanka sínum. Stjórn telur félagið vel í stakk búið til að takast á við óvissuna, eiginfjár- og lausfjárstaða Íslandshótela er sterk og skuldsetning félagsins vel innan lánaskilmála um áramótin,“ segir m.a. í skýrslu stjórnarinnar.  

Stikkorð: Íslandshótel uppgjör COVID-19