Íslandshótel tapaði um 120 milljónum króna á síðasta ári en til samanburðar var 2.158 milljóna tap árið 2020. Samstæðan tapaði 659 milljónum á fyrri árshelmingi 2021 og því má ætla að afkoma félagsins hafi verið jákvæð um hálfan milljarð á síðustu sex mánuðum ársins. Í ársreikningi samstæðunnar kemur fram að heildarafkomu síðasta árs hafi verið jákvæð um 3,1 milljarð sem skýrist af 4,,1 milljarða hækkun á virði fasteigna og lóða.

Tekjur Íslandshótela námu nærri tvöfölduðust á milli ára og námu 7 milljörðum króna. Til samanburðar þá námu tekjur samstæðunnar 11,5 milljörðum árið 2019, þegar áhrif farsóttarinnar gætti ekki. Í ársreikningi félagsins er bent á að fjöldi ferðamanna hafi verið 688 þúsund í fyrra en tæpar tvær milljónir árið 2019.

Rekstrargjöld hótelkeðjunnar námu rúmum 5 milljörðum. Á árinu störfuðu 360 starfsmenn hjá félaginu miðað við heilsársstörf og námu laun og launatengd gjöld 2,9 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var um tveir milljarðar. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBITE) nam 826 milljónum. Eignir félagsins námu 54,7 milljörðum króna í árslok 2021 og eigið fé nam 19,7 milljörðum.

„Annað árið í röð gætir áhrifa af Covid-19 faraldrinum í rekstri Íslandshótela. Félagið var svipt nær öllum tekjum sínum af erlendum ferðamönnum frá því í apríl 2020 og fram á haustið 2021. Við þessar fordæmalausu aðstæður má ljóst vera að hótelrekstur, sem þrífst nær alfarið á þeirri forsendu að ferðamenn komi til landsins, þurfti að grípa til víðtækra aðgerða,“ segir í skýrslu stjórnar.

Fram kemur að um tíma hafi aðeins eitt af 17 hótelum félagsins verið opið. Á síðasta ári rak hótelkeðjan svo allt að fjögur sjúkrahótel út árið.

Með opnun landamæra, afléttingu sóttvarnatakmarkana auk almennrar og víðtækrar bólusetningu gerir stjórnin ráð fyrir að ferðaþjónustan muni ná fyrri styrk árið 2023 en tekur þó fram að óvissa ríki vegna stríðsins í Úkraínu.

Sjá einnig: 40.000 fermetrar á Blómavalsreit

Þá kemur einnig fram að áætluð opnun Hótel Reykjavik Sögu við Lækjargötu 12 verði í júní næstkomandi.

Leigan lækkaði um þriðjung

Um miðjan janúar síðastliðinn lagði leigusalinn Íþaka fasteignir fram beiðni um gjaldþrotaskipti á Fosshótel Reykjavík, dótturfélags Íslandshótela, fyrir héraðsdómi Reykjavíkur og var kröfunni mótmælt af Fosshóteli Reykjavík. Í skýrslu stjórnar segir að málið hafi verið þingfest þann 23. febrúar og sætir nú meðferð héraðsdóms Reykjavíkur.

Sjá einnig: Fosshótel úr greiðsluskjóli

Fyrir tveimur vikum gekk komst fjölskipaður héraðsdómur að niðurstöðu í máli Fosshótels Reykjavíkur gegn Íþöku að lækka leigugreiðslur hótelsins um þriðjung fyrir tímabilið 1. apríl 2020 til 31. mars 2021. Fasteignafélagið hefur áfrýjað dómnum og bíður nú áfrýjunarleyfis frá Hæstarétti.