Stjórnendur Íslandshótela, stærstu hótelkeðju landsins, hafa til skoðunar að skrá félagið í Kauphöll Íslands samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, hugsanlega næsta vetur. Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, á um 75% hlut í fyrirtækinu sem hann stofnaði fyrir þrjátíu árum. Davíð Torfi Ólafsson, sonur Ólafs, er framkvæmdastjóri félagsins.

Fjárfestingafélagið S38 slhf. er annar stærsti hluthafinn með 24% hlut sem keyptur var á ríflega 2,8 milljarða króna árið 2015. S38 er að mestu í eigu lífeyrissjóða í gegnum samlagshlutafélögin Kjölfestu og Eddu. Ætlaður líftími bæði Eddu og Kjölfestu rennur út á næsta ári.

Íslandshótel hafa verið í miklum uppbyggingafasa á undanförnum árum. Frá því að S38 kom inn í hluthafahópinn árið 2015 hefur félagið fjárfest fyrir meira en tuttugu milljarða króna í byggingu nýrra hótela og endurbætur á eldri hótelum. Átjánda hótel fyrirtækisins verður opnað í júní við Lækjargötu og mun bera nafnið Reykjavík Saga. Þar með munu hótelherbergi keðjunnar vera hátt í tvö þúsund.

Eigið fé Íslandshótela í árslok 2021 nam 19,7 milljörðum króna en eignir námu tæpum 55 milljörðum króna. Hlutur Ólafs D. Torfasonar og fjölskyldu í eigin fé félagsins nemur um fimmtán milljörðum króna en hlutur S38 tæplega fimm milljörðum króna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Milljarða hlutfjáraukning hjá Samherja fiskeldi og stórlax fjárfestir í félaginu og sest í stjórn.
  • Viðtal við Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, í aðdraganda skráningar félagsins í Kauphöllina.
  • Útlit er fyrir að á annað þúsund barna verði á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík árið 2026.
  • Með yfirtökunni á Wenger stígur Marel sín fyrstu skref inn á 160 milljarða evra markaði. Rætt er við Árna Sigurðsson, framkvæmdastjóra hjá Marel.
  • Ísey útflutningur seldi um 20 þúsund tonn af skyri í fyrra og segir forstjóri félagsins vöruna hafa eiginleika sem séu eftirsóttir hjá neytendum í dag.
  • Rætt er við Hrefnu Sigríði Briem, en hún hefur tekið við sem forstöðumaður breytingastjórnunar og skrifstofu forstjóra hjá Kerecis.
  • Huginn & Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um borgarmálin.
  • Fjölmiðlarýnir fjallar um leiðaraskrif um vaxtahækkanir og fréttir af arðgreiðslum og álagningu.
  • Óðinn fjallar um skráningu Ölgerðarinnar og vafasamar lögskýringar Ívars J. Arndal.