Samstæða Íslandshótela hf. tapaði tæplega 2,2 milljörðum króna á síðasta ári. Tekjur félagsins námu aðeins 3,4 milljörðum samanborið við ríflega ellefu milljarða og 131 milljón betur árið á undan. Augljóst er að þar eru áhrif heimsfaraldursins á ferð.

Þetta kemur fram í ársreikningi samstæðunnar til Kauphallarinnar en félagið er með skráð skuldabréf. Sala á gistingu féll úr 7,3 milljörðum í rétt rúma tvo milljarða. Sá á veitingum dróst einnig verulega saman, úr 3,8 milljörðum í 1,4 milljarða.

Samkvæmt ársreikningnum dróst launakostnaður saman um rúm 60%, nam tæplega tveimur milljörðum og rekstrarkostnaður saman um rúmlega helming. Hann nam 3,6 milljörðum samanborið við 8,2 milljarða arið áður.

EBITDA félagsins var neikvæð um 1,5 milljarð en þar er á ferð fjögurra milljarða sveifla. Að teknu tilliti til fjármagnsgjalda var tap fyrir skatta 2,7 milljarðar. Í upphafi árs 2020 var fjöldi ársverka 705 en í lok þess var fjöldinn kominn niður í 368. Félagið var eitt þeirra sem nýtti sér stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti og fékk þaðan, tímabilið maí 2020 til febrúar 2021, 593 milljónir króna vegna uppsagna 468 starfsmanna. Aðeins Icelandair, Flugleiðahótel og Bláa lónið fengu meira. Þá fékk Fosshótel Reykjavík ehf. 155 milljónir króna vegna uppsagna starfsfólks.

Fasteignir félagsins voru metnar á rúmlega 39 milljarða króna í ársbyrjun og eignir alls 49,7 milljarðar. Langtímaskuldir voru 29,5 milljarðar og hækkuðu um rúmlega milljarð milli ára. Heildarskuldir námu 32,3 milljörðum. Eigiðfé var jákvætt um 17,4 milljarða en dróst saman um hátt í tvo milljarða milli ára.

„Force maejure“ deilu við Íþöku áfrýjað

Handbært fé í árslok var 432 milljónir og dróst saman um rúmlega 1,5 milljarð. Það er handveðsett til tryggingar á húsaleigu. Nýverið féll dómur í máli Fosshótel Reykjavíkur gegn leigusala sínum, Íþöku fasteignum ehf., þar sem deilt var um fjárhæð leigu á síðasta ári. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að leigusamningi aðila yrði vikið til hliðar tímabundið á þann veg að aðeins bæri að greiða helming leigunnar. Dóminum hefur verið áfrýjað af leigusala til Landsréttar.

Stærsta hótel samstæðunnar, Fosshótel Reykjavík, er nú nýtt sem sóttvarnahús en hótel samstæðunnar, að Grand hótel undanskildu, voru almennt lokuð síðasta ár. Síðasta dag marsmánaðar þessa árs fékk félagið heimild héraðsdóms til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

„Félagið hefur framlengt lánum félagsins þangað til í júlí 2021 og viðskiptabanki félagsins hefur fallið frá fjárhagslegum kvöðum [út árið 2021]. Ógreiddum afborgunum og vöxtum verður bætt við höfuðstól lána og lánstími lengist sem nemur niðurfelldum greiðslum afborgana,“ segir í skýringum. Afborganir á langtímaskuldum árið 2022/2021 lækka til að mynda um rúmlega helming og nema 1,4 milljörðum.

„Við þessar fordæmalausu aðstæður má ljóst vera að hótelrekstur, sem þríf nær alfarið á þeirri forsendu að ferðamenn komi til landsins, hefur þurft að grípa til fordæmalausra aðgerða. Íslandshótel hafa verið svipt nær öllum tekjum sínum af erlendum ferðamönnum frá því í apríl 2020,“ segir í athugasemd. Félagið hafi nýtt sér úrræði stjórnvalda til að bregðast við. Að mati stjórnar hafa þær aðgerðir sem gripið hefur verið til dugað til að halda samstæðunni rekstrarhæfri.