Íslandshótel töpuðu rétt rúmlega milljarði íslenskra króna á fyrri hluta ársins, sem er tæplega sexföldun tapsins frá sama tímabili árið 2019, þegar það nam tæplega 184 milljónum króna að því er fram kemur í nýbirtum samstæðureikningi hótelkeðjunnar.

Tekjur hótelkeðjunnar drógust saman um ríflega helming milli ára, úr tæplega 4,9 milljörðum króna í ríflega 2,2 milljarða, meðan rekstrargjöldin drógust saman um 43,5%, úr 3,9 milljörðum í 2,2 milljarða.

Laun og launatengd gjöld félagsins lækkuðu um tæplega 47%, úr 2,3 milljörðum í 1,3 milljarða króna á tímabilinu. Tap félagsins fyrir skatt ríflega fimmfaldaðist, úr 238 milljónum króna í 1,3 milljarða. EBITDA félagsins minnkaði um 97% milli áranna, úr 968 milljónum króna í 28 milljónir, en Rekstrarhagnaðurinn fór úr því að vera jákvæður um 358 milljónir í 619 milljóna króna tap.

Eigið fé félagsins dróst saman um 5,5% á tímabilinu, úr ríflega 19,1 milljarði króna í tæplega 18,1 milljarð, meðan skuldirnar jukust um 1,3%, úr 31,2 milljörðum í 31,6 milljarða króna. Þar með drógust eignir félagsins saman um 1,3%, úr 50,4 milljörðum króna í 49,7 milljarða króna, meðan eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 38% í 36,4%.

Davíð Torfi Ólafsson er framkvæmdastjóri Íslandshótela, en aðaleigendur félagsins eru ÓDT Ráðgjöf ehf., með 75,2% eignarhlut, S38 slhf. með 24,2% og Ólafur D. Torfason með 0,6% beinan hlut.