*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 14. ágúst 2020 13:20

Íslandshótel vill fresta afborgunum

Hótelkeðjan hefur beðið um undanþágu frá skilyrðum um eiginfjárhlutfall og hlutfall vaxtaberandi skulda á móti EBITDA.

Ritstjórn
Íslandshótel á Fosshótel Reykjavík, sem var lokað um óákveðinn tíma fyrr í ár.
Haraldur Guðjónsson

Íslandshótel hefur boðað fund með skuldabréfaeigendum þar sem hótelkeðjan mun sækjast eftir því að breyta skilmálum, sem felur meðal annars í sér greiðslufrystingu á næstu fjórum gjalddögum. 

Einnig verður sótt eftir að fyrirtækið þurfi ekki að uppfylla skilyrði um vaxtaberandi skuldir og eiginfjárhlutfall þar til 30. júní 2011. Þau skilyrði miða við að hlutfall vaxtaberandi skuldir á móti EBITDA verði ekki hærri en sjö á tólf mánaða tímabili og að eiginfjárhlutfall án óefnislegra eigna skuli vera 20% eða hærra á hverjum prófunardegi.

Um er að ræða skuldabréfaflokkinn IH 140647 sem var gefin út árið 2017 og voru skuldabréf að fjárhæð 2,86 milljörðum seld við útgáfu. Greiddur er höfuðstóll og vextir af lánunum með jöfnum greiðslum, fjórum sinnum á ári. Hótelkeðjan mun sækjast eftir að næstu fjórir gjalddagar skuldabréfanna falli niður en að lokagjalddagi verði færður til baka um heilt ár, til 14. júní 2048. 

Í greinargerð tillögunnar kemur fram hótelkeðjan hafi leitað úrræða hjá viðskiptabanka sínum, sem felst í aðgangi að lánalínu, undanþágum frá fjárhagslegum skilmálum, framlengingu lánasamninga og auknu aðgengi að lausafé. Þá hafi rekstur Íslandshótela verið aðlagaður af framboði ferðamanna og að stefna félagsins miði nú að því að tryggja reksturinn og skapa sveigjanleika svo að hægt verði að bregðast skjótt við þegar ferðaþjónustan tekur við sér á ný. 

Greinargerðina má finna í heild sinni hér að neðan. 

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur haft veruleg áhrif á ferðaþjónustuna um heim allan og markast afkoma og rekstur Íslandshótela af þeim aðstæðum og óvissu sem ríkir vegna faraldursins. Ferðatakmarkanir og aðrar takmarkanir eru enn í gildi í ákveðnum löndum sem eru mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Ekki er hægt að sjá hvenær eftirspurn eftir ferðalögum mun komast aftur á eðlilegt stig.

Íslandshótel hefur gripið til umfangsmikilla ráðstafana til að bregðast við fækkun ferðamanna með því meðal annars að loka hótelum, bjóða sértilboð markaðssett fyrir innanlandsmarkað, víðtækum uppsögnum starfsmanna og almennri endurskipulagningu rekstrar. Rekstur félagsins hefur verið aðlagaður að framboði ferðamanna og miðar stefna félagsins að því að tryggja reksturinn og skapa sveigjanleika þannig að hægt verði að grípa skjótt til aðgerða um leið og ferðaþjónustan tekur við sér á nýjan leik.

Ennfremur hefur félagið nýtt sér úrræði stjórnvalda til þess að draga úr áhrifum á reksturinn. Þá hefur félagið jafnframt leitað úrræða hjá viðskiptabanka sínum, sem felst í aðgangi að lánalínu, undanþágum frá fjárhagslegum skilmálum, framlengingu lánasamninga og auknu aðgengi að lausafé.

Með tillögunni er þess farið á leit við skuldabréfaeigendur að þeir veiti félaginu sambærilegar tilslakanir á skilmálum skuldabréfanna og viðskiptabanki þess.

Stikkorð: Íslandshótel