Fólk borgar og borgar en lánin hækka samt. Ásgeir Jónsson hagfræðingur segir að það sé innbyggt í skilmálum svokallaðra Íslandslána. Slík lán eru verðtryggð húsnæðislán með föstum raunvöxtum til allt að 40 ára með jafngreiðsluskilmálum. Hann segir að slík lán skapi hvata fyrir of mikla skuldsetningu. Ásgeir var með erindi um málið á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja, ASÍ og Íbúðalánasjóðs um framtíð fasteignalána hér á landi í morgun.

Ásgeir sagði jafnframt að ný lög um gjaldþrot einstaklinga og lyklafrumvarp munu breyta vilja lánveitenda til þess að veita Íslandslán. Þetta kerfi sé því að hverfa á braut þar sem lánveitendur munu ekki vilja lána slík lán lengur.

Ásgeir sagði að lokum að lausnin gæti falist í lánum sem bera breytilega vexti en engar afborganir fyrr en á gjalddaga. Slík lán gætu verið eina raunhæfa leiðin úr úr verðtryggingunni. Höfuðstóll slíkra lána myndi þá lækka að raunvirði með verðbólgu þó hann standi fastur að nafnvirði.