*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 18. september 2021 14:09

Íslandslánin orðin góðkynja

Munur eignamyndunar eftir lánaformi, jöfnum greiðslum eða afborgunum, hefur dregist verulega saman.

Júlíus Þór Halldórsson
Eignamyndun heimilanna hefur stóraukist síðustu ár, ekki aðeins á eignahliðinni heldur skuldahliðinni líka.
Haraldur Guðjónsson

Eignamyndun heimilanna hefur aukist mikið síðustu ár, ekki aðeins vegna fastneignaverðshækkana, heldur aukinnar skuldalækkunar jafngreiðslulána á fyrri hluta lánstímans.

Lengi hefur verið varað við hinum alræmdu Íslandslánum – 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum – fyrir það að vera óhagstæð neytendum, og jafnvel talað um að þau hneppi fólk í skuldaánauð. Eignamyndun sé engin og lánið bara hækki og hækki, og segja megi að lántaki sé að leigja sína eigin íbúð fyrstu árin, jafnvel fyrsta áratuginn eða svo.

Yfirvöld dregið lappirnar við að standa við bannið
Lánin hafa verið sérstakur skotspónn and-verðtryggingarsinna, og starfshópur um afnám hennar lagði meðal annars til að við þeim yrði lagt blátt bann (en öðrum verðtryggðum lánum ekki), sem síðar varð eitt af loforðum ríkisins í Lífskjarasamningunum svokölluðu árið 2019. Ríkisstjórnin hefur síðan þá baslað í hálfkáki við að standa við það loforð, meðal annars með því að leggja til að banna Íslandslánin, en með undanþágu fyrir svo til alla sem gætu hugsanlega viljað eða þurft að taka þau.

Utan hugmynda um Íslandslánabannið hefur hins vegar sáralítil umræða verið um muninn á jöfnum afborgunum og jöfnum greiðslum fasteignalána heimilanna, þrátt fyrir að formin hafi sögulega haft mjög ólíka greiðslubyrði og eignamyndun.

Óhagræði Íslandslánanna – og jafngreiðslulána almennt – hefur hins vegar tekið miklum stakkaskiptum eftir því sem vextir hafa lækkað, og mantran um að eignamyndun sé lítil sem engin fyrstu árin er orðin að mýtu.

Eins og sjá má er Íslandslán á 1,5% vöxtum mun líkara láni með jöfnum afborgunum en samskonar láni með 4,5% vöxtum, eins og algengt var að lántakendum byðist fyrir um 5 árum síðan.

76% á við jafnar afborganir á aðeins 5 árum
Eignamyndun jafngreiðslulána er afar næm fyrir vaxtastigi. Við 1,5% vexti lækkar jafngreiðslulán um 76% þeirrar upphæðar sem lán með jafnar afborganir lækkar um strax á fyrstu 5 árunum, og hlutfallið fer síhækkandi eftir því sem líður á lánstímann og er komið í 85% eftir 20 ár.

Til samanburðar eignast jafngreiðslulántaki aðeins 28% af því sem nágranni hans með jafnar afborganir safnar sér (að frátöldum fasteignaverðshækkunum þó) við 6% vexti á 5 árum, og hefur enn ekki náð að lækka lánið um helming þess sem nágranninn er kominn með að 20 árum liðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.