Nokkur stór uppgjör munu birtast í Kauphöllinni á morgun en líklega er mest eftirvænting eftir uppgjöri Exista enda líklegt að Íslendsmet falli þegar kemur að hagnaði á einum ársfjórðungi. Exista skilar samkvæmt  spá Greiningar Glitnis 54,6 milljarða króna hagnaði eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi.

Þessi ágæta afkoma kemur til af góðri afkomu kjarnafjárfestinga félagsins sem eru eignarhlutir í Kaupþingi og finnska tryggingafélaginu Sampo. Exista færir þessa eignarhluti í fyrsta sinn samkvæmt hlutdeildaraðferð í stað þess að færa gengismun í rekstrarreikningi. Sampo bókfærir óvenju háan hagnað á fyrsta ársfjórðungi vegna sölu á bankastarfsemi sinni til Danske Bank og samtals áætlar Greining Glitnis hlutdeild Exista í hagnaði Sampo vera um 42 milljarðar króna.

Samsvarandi er hlutdeild Exista í væntum hagnaði Kaupings um 5 milljarðar króna en fyrri uppgjörsaðferð hefði skilað gengismun og arðgreiðslu upp á 34 ma.kr. en það er hin raunverulega virðisaukning af eignarhlutnum í Kaupþingi á tímabilinu segir Greining Glitnis.