Iðnmennt stendur fyrir Íslandsmóti iðngreina föstudaginn 18. og laugardaginn 19. apríl nk. í anddyri gömlu Laugardalshallarinnar. Markmið Íslandsmóts iðngreina er að auka sýnileika iðn- og starfsmenntunar, kynna þær almenningi – ekki síst ungu fólki – og vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og starfi í iðngreinum.

Í tilkynningu vegna mótsins segir að líkt og undanfarin ár sér Iðnmennt um almennan undirbúning og skipulagningu mótsins en hefur nú gert samstarfssamning við AP almannatengsl sem sjá um kynningarmál og framkvæmd viðburðarins.

Mótið í ár er haldið í tengslum við sýninguna Verk og vit sem haldin er annað hvert ár en héðan í frá  verða þessir tveir viðburðir haldnir samhliða. Sýningin tókst með eindæmum vel síðast þegar hún var haldin, vorið 2006, og nú stefnir í að umfang hennar verði jafnvel enn meira en þá. Sýningin Verk og vit 2008 verður haldin dagana 17.-20. apríl næstkomandi. „Það verður kátt í Laugardalshöllinni þessa daga og mikið um að vera: Í gömlu höllinni keppir unga fólkið en í nýju sýningarhöllinni sýnir fjöldi fagaðila með mikla reynslu allt það nýjasta hver á sínu sviði. Við erum sammála um að viðburðirnir tveir muni styðja vel hvor við annan,“ segir Margit Elva Einarsdóttir, forstöðumaður viðburða hjá AP almannatengslum og framkvæmdastjóri Verks og vits.

Fyrirkomulag mótsins í ár er breytt frá því sem verið hefur að því leyti að nú ber það yfirskriftina Íslandsmót iðngreina í stað Íslandsmóts iðnnema. Mótið í ár er einnig undanfari og forkeppni einstakra keppnisgreina fyrir þátttöku í Euro Skills og Work Skills sem er alþjóðleg keppni iðngreina. Íslandsmótið er ætlað iðnnemum og nýútskrifuðum iðnaðarmönnum, 22 ára og yngri. Keppt verður í eftirtöldum greinum: Dúklagningum, hársnyrtingu, málaraiðn, stálsmíði, múrverki, pípulögn, rafvirkjun, bílgreinum, snyrtifræði, trésmíði, prentiðn, grafískri miðlun og ljósmyndun. Auk þess verða kynntar ýmsar greinar, m.a. matvælaiðn og garðyrkja.

„Það hefur sýnt sig að mót sem þetta er einhver besta kynning á iðnmenntun sem völ er á. Það er því von okkar að samstarfið við AP almannatengsl og tengslin við Verk og vit fjölgi enn frekar þeim sem leggja stund á iðnnám í framtíðinni,“ segir Erling Erlingsson, framkvæmdastjóri Iðnmenntar.