Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá bréfpósts innan einkaréttar sem nemur 9% en Íslandspóstur hafði farið fram á allt að 32% hækkun.

Í frétt Morgunblaðsins segir að stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að forsendur væru ekki fyrir hendi til að samþykkja hækkunarbeiðnina óbreytta og vísaði m.a. til þess að Íslandspóstur hefði ekki lagt fram gögn til að styðja þá fullyrðingu að alþjónustubyrði hefði verið vanmetin í útreikningum félagsins.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir í samtali við Morgunblaðið að tap verði á rekstri fyrirtækisins á þessu ári og enn meira á því næsta, að óbreyttu. „Við erum með ákveðið kerfi sem okkur er skylt að sinna og það bara vex með fjölgun íbúða og kostnaðurinn sömuleiðis. Og þótt við vildum hagræða þá eru okkur settar mjög þröngar skorður í því,“ segir Ingimundur.