Íslandspóstur hf. býður nú fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu svonefnda ?samdægursþjónustu?. Pósturinn sækir sendingar, skjöl og vörur til fyrirtækja alla virka daga og dreifir þeim samdægurs til annarra fyrirtækja á daginn og til einstaklinga á kvöldin. Fyrirtækið ýtti þessari nýju þjónustu úr vör í sumarbyrjun, en með henni er Pósturinn að bregðast við kröfum markaðarins um meiri hraða og sveigjanleika.

Af viðtökum að dæma er ljóst að full þörf er fyrir samdægursþjónustu sem þá sem Pósturinn veitir því fjöldi fyrirtækja nýtir sér hana nú þegar. Telja forsvarsmenn Póstsins að öflugur bílafloti ásamt umfangsmiklu dreifikerfi geri fyrirtækjunum á höfuðborgarsvæðinu kleift að ná fram verulegri hagræðingu með nýtingu þjónustunnar.

Samdægursþjónusta Póstins opnar fyrirtækjum nýja leið til að dreifa skjölum og vörum til viðskiptavina. Þjónustan gerir fyrirtækjum mögulegt að ná fram verulegri hagræðingu með lækkun kostnaðar við skjala- og vörusendingar og betri nýtingu fjármuna sem varið er í þessu skyni. Með Samdægursþjónustu er föstum sendingakostnaði breytt í breytilegan og gegnsæjan kostnað. Auk þess sem fyrirtækin geta treyst því óhikað að með Samdægursþjónustu Póstsins komist sendingin hnökralaust til viðskiptavinar leggur Pósturinn jafnframt áherslu á að laga þjónustuna að sérstökum þörfum hvers og eins fyrirtækis.

Pósturinn býður fyrirtækjum þrjár mismunandi leiðir í Samdægursþjónustu.

1.

Söfnun skjala og vöru, miðlæg flokkun og dreifing
Pósturinn sækir sendingar í fyrirtæki fyrir hádegi, safnar þeim saman og ekur með þær í póstmiðstöð. Þar eru sendingar skráðar og þeim er svo ekið út eftir hádegi til fyrirtækja og til einstaklinga á kvöldin sama dag. Fyrirtæki þurfa að vera með minnst 3 sendingar í einu.

2.

Vöru- og skjaladreifing beint frá fyrirtækjum til móttakanda (útkeyrsla)
Pósturinn gerir sérsamning við fyrirtæki og gefur tilboð í fyrirfram ákveðnar útkeyrsluleiðir. Verð miðast við magn og eðli sendinga. Þetta er lausn sem er klæðskerasniðin fyrir hvert einstakt fyrirtæki.

3.

Hraðþjónusta - hraðsendlar
Pósturinn sækir sendingu til fyrirtækis og ekur henni strax til móttakanda, fyrirtækis eða einstaklinga. Miðað er við að hámarksþyngd hraðsendingar sé 10. kg.