Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands hefur útnefnt Íslandspóst sem „fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“. Íslandspóstur er fjórða fyrirtækið hér á landi sem hlýtur þessa útnefningu og fyrsta opinbera hlutafélagið sem hlýtur þessa viðurkenningu.

„Þó að útnefning þessi sé mikilvæg staðfesting á því að Íslandspóstur er á réttri leið í starfsháttum sínum og stjórnun, þá má alltaf gera betur. Við einsetjum okkur það,“ segir Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, í tilkynningu.

Þar segir jafnframt að Íslandspóstur geti verið öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar þegar komi að góðum stjórnarháttum. Hlutverk og verkefni stjórnar sé vel skilgreint í samþykktum fyrir Íslandspóst og starfsreglum stjórnar. Þá kanni stjórnin reglulega hvort hún vinni samkvæmt starfsreglum. Félagið hefur sett sér siðareglur, jafnréttisáætlun og tekur þátt í verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna, Global Compact verkefninu, þar sem félagið skuldbindur sig til þess að vinna í samræmi við tíu alþjóðlega viðurkennd grundvallarréttindi.

Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Kauphöllin (Nasdaq OMX Iceland hf.) og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands standa saman að því að efla góða stjórnarhætti íslenskra fyrirtækja. Til þess veitir Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti fyrirtækjum tækifæri til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda.