Þann 2. janúar 1998 tók Íslandspóstur hf. formlega til starfa eftir skiptingu Pósts og Síma í tvö fyrirtæki. Fyrirtækið hefur tekið mjög miklum breytingum á þessum 10 árum, mikil framþróun hefur orðið í starfsemi og starfsumhverfi þess og eru enn frekari breytingar framundan, sem bjóða upp á fjölmörg ný tækifæri.

Í tilkynningu vegna þessara tímamóta segir að starfsemi Íslandspósts sé dreifð víðs vegar um land og eru starfsstöðvar margar, en um 1.300 manns starfa nú hjá fyrirtækinu við hin ýmsu störf, m.a. í Póstmiðstöð, á skrifstofu, pósthúsum og dreifingarstöðvum, við útkeyrslu og dreifingu.

Meðal þess sem hæst ber á tíu ára starfstíma Íslandspósts er sú ákvörðun stjórnar um byggingu póstmiðstöðvar við Stórhöfða, uppsetningar á sex dreifingarstöðvum á höfðuðborgarsvæðinu auk þess að byggja upp sautján þjónustukjarna víðs vegar um land. Þeirri ákvörðun var fylgt eftir með því að hefja undirbúning að byggingu tíu nýrra pósthúsa með það fyrir augum að auka þjónustu á landbyggðinni jafnt sem á höfuðborgarsvæðinu. Á þessum svæðum munu pósthúsin sjá um útlkeyrslu sendinga til einstaklinga og fyrirtækja, þar fer fram flokkun og vinnsla sendinga og aðstaða verður fyrir bréfbera og landpósta.  Jafnframt fer þar fram móttaka og afhending sendinga og margs konar önnur þjónusta. Með þessum aðgerðum er stefnt að því að efla ennfrekar þjónustu við sem flesta landsmenn, en um 95% heimila á landinu eru innan þessara þjónustukjarna.

Á árinu 2007 var nýtt húsnæði tekið í notkun fyrir dreifingarstöð í Reykjavík, tvær póstafgreiðslur voru endurnýjaðar á höfuðborgarsvæðinu og þrjú ný pósthús voru tekin í notkun á landsbyggðinni, á Reyðarfirði, Húsavík og í Stykkishólmi, en það eru fyrstu pósthúsin sem Íslandspóstur hefur staðið fyrir byggingu á.

Hinar miklu endurbætur, sem gerðar hafa verið og framundan eru á starfsstöðvum Íslandspósts, munu í senn bæta aðstöðu og aðgengi viðskiptavina Íslandspósts sem og aðbúnað og starfsumhverfi starfsmanna fyrirtækisins.  Það er von stjórnenda og starfsmanna Íslandspósts, að með bættri aðstöðu og aðbúnaði geti landsmenn allir nýtt sér í enn frekari mæli flutningsleiðir og þjónustu Póstsins.

Framangreindar breytingar eru í samræmi við þá meginstefnu Íslandspósts að vera hér eftir sem hingað til leiðandi fyrirtæki í sendinga- og póstþjónustu fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki með það meginmarkmið í huga að bjóða upp á áreiðanlega og örugga dreifingu um land allt og allan heim.