Ríkisfyrirtækið Íslandspóstur hefur keypt 17% hlut í vefmælingafyrirtækinu Modernus og hefur Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, tekið sæti í stjórn Modernus. Íslandspóstur hefur keypt hlutinn í tveimur áföngum, fyrst 13% hlut sem var síðan aukinn upp í 17% nú eftir áramót.

Að sögn Ingimundar stefnir félagið að því að eignast fimmtungshlut í Modernus. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var miðað við gengið fjóra í viðskiptunum sem þýðir að Modernus var metið á um 110 milljónir króna.

En hvernig fellur vefmælingastarfsemi að markmiðum Íslandspósts? "Markmið okkar er fyrst og fremst að fikra okkur inn á þennan þátt í samskiptum í samræmi við stefnumótun stjórnar félagsins. Hlutverkið er því ekki eingöngu að sinna póstþjónustu heldur að vera almennt í samskiptalausnum. Tilgangur okkar er að stimpla okkur þarna inn og þróa fyrirtækið í nýjar áttir," sagði Ingimundur.

Á hluthafafundi Íslandspósts, sem alfarið er í eigu ríkisins, þann 5. janúar síðastliðin voru gerðar breytingar á samþykktum félagsins til að víkka út starfsemi og hlutverk þess. Að sögn Ingimundar var hlutverk félagsins skilgreint betur þar með nýrri grein sem víkkar út hlutverk félagsins. Áður var talað um póstþjónustu sem Ingimundur sagði illa skilgreint hugtak og hafa þrönga merkingu.

"Samkvæmt samþykktum fyrirtækisins erum við að sinna fyrirtækjum og einstaklingum á sviði dreifingar, samskipta, flutninga og lausna og öðrum sviðum er tengjast þessari starfsemi eins og segir í samþykktum félagsins. Þessi kaup falla undir það, en hugur manna stendur til þess að þróa fyrirtækið eins og metnaðarfullum stjórnendum hlutafélag gengur til. Þetta er liður í því."


Upplifa sig á samkeppnismarkaði

Fyrir skömmu var umræða á Alþingi um útvíkkun á starfsemi Íslandspósts í kjölfar kaupa félagsins á fyrirtækinu Samskiptum og fyrirspurnar Guðjóns Ólafs Jónssonar alþingismanns. Þar mótmæltu allmargir þingmenn slíkri þróun.

"Við getum í sjálfu sér ekki stjórnað fyrirtæki frá degi til dags út frá afstöðu manna hér og þar til starfsemi þess. Við byggjum okkar rekstur fyrst og fremst á því að Íslandspóstur er hlutafélag. Við höfum ákveðnar samþykktir og starfsreglur til að byggja á og stjórnendur reyna að spila úr því eins og best má verða. Mér finnst þess misskilnings hafa gætt í umræðunni að Íslandspóstur væri eingöngu á einkaleyfisvörðum markaði en því fer víðs fjarri. Ríflega helmings tekna okkar er aflað á samkeppnismarkaði og er búið að vera lengi. Reyndar er það svo að allmörg fyrirtæki á samkeppnismarkaðinum eru með þjónustu sem segja má að sé inni á einkaleyfissviðinu og við höfum ekki gert miklar athugasemdir við það. Starfsmenn Íslandspósts upplifa sitt starfsumhverfi þannig að það sé verið að vinna á samkeppnismarkaði. En svo er annað sem mér finnst merkilegt að ekki skuli hafa verið dregið fram í umræðuna en það er sú spurning hvort að það sé eðlilegt að ríkið eigi svona fyrirtæki. Það er allt annað mál, " sagði Ingimundur en hann benti á að það liggi fyrir í tilskipun Evrópusambandsins um að fella niður einkaleyfi á þessum markaði og það bíði fyrirtækisins að undirbúa sig undir það. Það kom fram í samtali við hann að óendurskoðað uppgjör fyrir síðasta ár sýnir 250 milljóna króna hagnað.

Einkahlutafélagið Modernus var stofnað 4. mars 2000. Hluthafarnir eru þrettán og þrír af stofnendunum eiga meira en 10% í félaginu. Stjórnarformaður Modernus ehf. er Tryggvi Karl Eiríksson, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands. Aðrir í stjórn eru Bárður Hreinn Tryggvason, fasteignasali og fjárfestir, Magnús Soffaníasson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri TSC ehf, Jens Pétur Jensen þjóðhagfræðingur, sem jafnframt er framkvæmdastjóri og stærsti eigandi félagsins, og nú Ingimundur Sigurpálsson forstjóri Íslandspósts.