Átta afgreiðslustöðum Íslandspósts hefur verið lokað síðastliðin tvö ár en í stað þess hefur í flestum tilvikum þjónusta landpósta á viðkomandi svæðum verið aukin.

Þar fyrir utan liggur fyrir nýleg samþykkt Póst- og fjarskiptastofnunar á lokun fjögurra afgreiðslna til viðbótar.

Þetta kemur fram í skriflegu svari samgönguráðherra, Kristjáns L. Möller, við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar, þingmanns Vinstri grænna. Svarinu var dreift á Alþingi í gær.

Umræddar lokanir hafa verið á Bakkafirði, Stokkseyri, Eyrarbakka, Stað í Hrútafirði og Flúðum, í 105 Reykjavík, 113 Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli.

Þá stendur til að loka afgreiðslustöðum í Króksfjarðarnesi, að Laugum í Reykjadal, í Varmahlíð og í Reykholti í Borgarfirði.

Í svarinu segir enn fremur: „Ráðherra er kunnugt um að hjá Íslandspósti er til athugunar að efla landpóstaþjónustu og loka póstafgreiðslum þess í stað í Mjóafirði, Flatey og Hrísey, auk þess sem til skoðunar er að flytja starfsemi póstafgreiðslunnar á Hellissandi í húsnæði póstafgreiðslunnar í Ólafsvík en um þessar mundir standa yfir endurbætur á því húsnæði.“